Eins og báðum lesendum þessa bloggs (að mér meðtöldum) er kunnugt var ég staddur á Íslandi fyrir réttum mánuði síðan. Á leiðinni út aftur gerðist nokkuð sem hefur valdið mér miklu hugarangri og hefur tekið mig allan þennan tíma að reyna að skilja og komast yfir.
Í flugstöðinni í Keflavík festi ég kaup á grænmetissósu frá E. Finnssyni eins og oft hefur gerst áður og sem ekki er í frásögur færandi. Mér finnst þessi sósa mjög góð og var kátur yfir að á síðustu stundu hafa munað eftir því að kippa henni með mér. Ég kom flöskunni fyrir í handfarangrinum og dreif mig svo upp í vél. Allt í gúddí!
Flugið gekk ljómandi vel, enda ekki við öðru að búast og þegar ég lendi á Arlanda næ ég í ferðatöskuna mína á bandið og tékka hana inn í næsta flug til Östersund.
Þegar ég svo fer í gegn um öryggishliðið og gegnumlýsinguna á handfarangrinum byrjar vesenið. Blessaður öryggisvörðurinn, sem að sjálfsögðu sinnir starfi sínu vel og af kostgæfni, sér grunsamlega flösku í handfarangrinum. Þar liggur ennþá grænmetissósan góða frá E. Finnssyni, sem ég hef gleymt að leggja í ferðatöskuna áður en ég tékkaði hana inn. Maðurinn gerir sig líklegan til að gera sósuflöskuna upptæka, sem jú inniheldur meira en 100 ml af einhverju gummsi sem að hans mati virðist torkennilegt. Mér finnst þessi sósa mjög góð og vil ógjarnan sóa henni í vitleysu, en engu að síður býð ég þessum góða manni að smakka til að hann geti skorið úr um það hvort að hér sé virkilega á ferðinni eitthvað sem hægt sé að nota til hryðjuverka. Maðurinn tekur hárrétta ákvörðun og þverneitar þessu góða boði, enda hefði grænmetissósan frá E. Finnssyni hæglega getað orðið honum að aldurtila. Ég sting þess vegna upp á því við mannfjandann að ég smakki sjálfur á sósunni, sem mér finnst eins og áður segir mjög góð, svo að hann geti varpað öndinni léttar og afskrifað allar hugmyndir um að hægt sé að fremja fjöldamorð með henni. Hann vísar öllum tillögum um sósusmökkun frá og tjáir mér að ég verði að snúa við og tékka inn handfarangurinn minn og sósuna góðu ef ég ætla að taka hana með mér alla leið. Það varð endirinn á málinu, ég snauta tilbaka með handfarangurinn og tékka hann inn fyrir þúsundkall. Þegar hér er komið sögu finnst mér þessi sósuflaska orðin nokkuð dýr, en samt finnst mér það þess virði að gera þetta samt því ég nú var ég búinn að hafa töluvert fyrir þessu öllu saman og mér finnst sósan eins og áður segir mjög góð.
Grænmetissósunni frá E. Finnssyni kom ég alla leið heim, en það er ekki laust við að maður sé efins um hversu árangursríkar allar þessar nýju reglur um hvað má hafa með sér í flugvélarnar eru. Ef maður til dæmis ferðast með fartölvu láta öryggisverðirnir sér nægja að opna hana og loka henni svo aftur. Hvað sér maður þá sem gerir það að verkum að hægt er að úrskurða um að engum stafi hætta af gripnum? Og svo spurningin: "Pakkaðir þú niður í töskurnar þínar sjálfur?". Er til eitthvað annað svar en að maður hafi gert það sjálfur? "Nei, vingjarnlegur maður með dökkt langt skegg og túrban gerði það fyrir mig rétt áðan". Til hvers að gera skæri, naglaklippur og þjalir upptækar þegar hægt er að kaupa slíkan varning í verslunum brottfararsala á flestum flugvöllum? Getur maður annars rænt flugvél með naglaklippur einar að vopni? Maður ryðst ekki beinlínis inn í flugstjóraklefann og öskrar: "Fljúgið vélinni til Teheran, annars klippi ég neglurnar á ykkur aðeins of mikið þannig að ykkur svíður í þær í kvöld!!". Fáránlegt!
Það liggur við að maður vilji hvetja til almennrar óhlýðni þegar kemur að þessum málum. Af hverju ekki að taka með sér í handfarangrinum helling af drasli sem maður annars er í vandræðum með að losa sig við og láta gera það upptækt. Það þurfa ekki að vera merkilegir hlutir. Ef maður hefur verið að breyta til heima, t.d. í baðherberginu eða eldhúsinu, getur maður haft með sér gömlu blöndunartækin. Það getur enginn sett mann inn eða sektað fyrir að fyrir einskæra tilviljun hafa haft það með sér í handfarangrinum. Stórtækir geta jafnvel haft með sér gamla vaskinn! "Skrítið, ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta komst í töskuna hjá mér". Yfirfyllum geymslur öryggisgæslunnar á flugvöllum hvar sem við komum!
Gerið mig stoltann, gott fólk!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | 18.7.2008 | 14:03 (breytt 23.7.2008 kl. 06:35) | Facebook
Myndaalbúm
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.